23.2.2018
5 KVK - leikjadagskrá, úrslit, tímaskipulag o.fl. - og fleira mikilvægt Hér eru tenglar á leikjadagskrá og deildirnar í Goðamótinu í 5. flokki kvenna 23.-25. febrúar. Úrslit verða síðan færð inn í þessi skjöl. 

Leikjadagskrá 5 KVK (pdf-skjal)
Riðlar 5 KVK (pdf-skjal)

Handbók mótsins - dagskrá
Tímaskipulag

Reglur og fyrirkomulag í deildum


Greiðsla þátttökugjald og mótsarmbönd - Liðsstjórar/fararstjórar komi til mótsstjóra eða gjaldkera á föstudegi og gangi frá greiðslu (ef það hefur ekki þegar verið gert með millifærslu) og fái armbönd fyrir sitt lið (eða öll liðin frá félaginu). Gjaldkerinn verður á vaktinni eftir hádegi á föstudag og mótsstjórinn á svæðinu fram á kvöld. Staðfestingargjald (þremur vikum fyrir mót) og þátttökugjald greiðist inn á reikning 0565-26-147500, kt. 670991-2109 og staðfestingarpóstur í godamot[at]thorsport.is. Þegar þátttökugjaldið er greitt dregst staðfestingargjaldið frá. Einnig má gera upp með korti eða peningum hjá mótsstjórn í Hamri þegar liðin mæta á svæðið. Við leggjum áherslu á að öll lið geri upp gjaldið fyrir fyrsta leik sinn í mótinu.

Gisting í GlerárskólaÖll liðin gista í skólastofum í Glerárskóla (sjá mynd hér með sotfuskipan). Við leggjum mikla áherslu á góða umgengni og að þátttakendur beri virðingu fyrir nemendum og kennurum skólans, láti allan búnað í friði, gangi vel um stofurnar og skilji við þær eins og þið mynduð vilja koma að ykkar eigin skólastofum á mánudagsmorgni ef mót eins og Goðamótið væri í ykkar heimabyggð. Athugið að skólinn er opnaður kl. 15 á föstudegi og engum hleypt þar inn fyrr. Matsalurinn í skólanum er opinn og þar geta lið borðað nesti þegar hentar.

Ís í Ísgerðinni í Kaupangi – Liðsstjórar fá afhenta ísmiða (einn fyrir hvern þátttakanda) sem afhenda þarf í Ísgerðinni til að fá Goðamótsís. Rútuferðir verða frá Hamri kl. 13:30-16:30 á laugardag, en þátttakendum er frjálst að sleppa rútunni og fara á öðrum tímum á meðan mótið stendur. Ísmiðinn gildir frá föstudegi fram á sunnudag á meðan viðkomandi mót stendur yfir og opið er í Ísgerðinni kl. 11-23 alla daga. Raðað hefur verið í rútuferðir skv. tímaskipulagi út frá leikjadagskránni.

Leikjadagskrá og tímaskipulag – Annars vegar hefur verið útbúin leikjadagskrá með tímasetningum og hins vegar hefur verið gert tímaplan fyrir matartíma, sund og ísferðir. Liðsstjórar eru beðnir um að virða þessar tímasetningar til að allt gangi vel fyrir sig og biðraðir verði styttri.

Nýtt gervigras ­– Athygli keppenda er vakin á því að stranglega er bannað að fara með matvæli og neyta þeirra inni á gervigrasinu. Nú er komið nýtt gervigras á völlinn og við viljum vernda það sem best við getum og því aðeins leyft að taka með vatn til drykkjar í leikina. Önnur neysla fari fram utan vallarins, en liðin eru að sjálfsögðu velkomin í Hamar, félagsheimili Þórs, með nestið sitt.

Öflugri veitingasala verður á Goðamótunum í vetur en verið hefur og meira úrval. Veitingasala verður að hluta í Boganum, en aðalsalan er í Hamri, félagsheimili Þórs. Þar verður meðal annars hægt að fá hina vinsælu Goða-kjötsúpu ásamt ýmsu öðru. Þjálfarar fá nú matarmiða (afhent liðsstjórum um leið og armböndin) sem gildir fyrir tveimur diskum af kjötsúpu og tveimur samlokum um helgina. Þjálfarar hafa sér afdrep (ekki opið þátttakendum) í vesturenda Hamars. Þar verður einnig heitt á könnunni.

Hástökks- og stangarstökksdýnur eru ekki leiksvæði. Vinsamlega haldið börnunum frá dýnunum, m.a. vegna slysahættu.

Bílastæði – Vakin er athygli á að bílastæði eru við báða enda Bogans. Mikilvægt er að bílstjórar vandi sig við lagningu bíla, sérstaklega á laugardag þegar í gangi eru rútuferðir frá Hamri í Ísgerðina. Þá þarf greiða leið fyrir stóra rútu inn á bílastæðið og út af því aftur.

Mótsgjöf frá Goða – Allir keppendur fá gjöf frá Goða. Liðsstjórar eða fararstjórar félaga geta sótt gjafirnar til mótsstjórnar í Hamri á sunnudag, annað hvort fyrir sitt lið eða allt félagið. Minnum einnig á Instagram-leikinn, #fotboltagod.

Verðlaun eru fyrir fyrstu þrjú sætin í hverri deild. Sigurliðið fær bikar og liðsmenn þriggja efstu liða fá verðlaunapening. Verðlaunaafhending fer fram við stóru Goðaborðana á miðjum vellinum jafnóðum og keppni lýkur í  hverri deild.

Liðsmyndatökur eru í boði á mótinu fyrir hádegi á laugardag (10-12). Allar liðsmyndir fara inn á Facebook-síðu mótsins. Myndataka fer fram við stóru Goðaborðana í miðju Bogans.Þessi vefur er tileinkaður minningu Rúnars Hauks Ingimarssonar.