16.11.2017
Velkomin á nýjan vef Goðamótanna Undanfarið hefur staðið yfir vinna við uppfærslu á mótsvef Goðamótanna og nú er nýja síðan komin í loftið. Vekjum athygli á þeirri nýjung að nú fer skráning liða fram í gegnum þennan vef.


Nú eru komnar inn helstu upplýsingar fyrir væntanlega þátttakendur á mótunum 2018, dagsetningar, almenn dagskrá, reglur mótanna, matseðlar og innihaldslýsingar. Við vekjum þó athygli á að ýmsar tímasetningar geta verið mismunandi á milli einstakra móta og fer það eftir fjölda þátttakenda.

Skráning á mótsvefnum
Skráning liða er komin á fullt og fer hún nú alfarið fram í gegnum þennan mótsvef (sjá flipa efst á síðunni). Þjálfarar og foreldraráð væntanlegra þátttökufélaga eru beðin um að senda inn eins skilmerkilegar upplýsingar og mögulegt er við skráningu - en síðan verður mótsstjórinn að sjálfsögðu í sambandi við tengiliði þegar nær dregur hverju móti varðandi endanlegan fjölda liða, þátttakenda, fjölda í gistingu, röðun í styrkleikaflokka o.s.frv.  

Þátttökugjald og staðfestingargjald

Þátttökugjald er óbreytt frá mótunum á árinu 2017, 11.500 krónur á hvern keppanda, systkinaafsláttur í boði. Frítt er fyrir þjálfara félaganna og einn liðsstjóra/fararstjóra með hverju liði. Fyrir hvern fullorðinn sem fær mótsarmband umfram þann fjölda greiðast 6.000 krónur.

Þátttökugjaldið greiðist inn á reikning 0565-26-147500, kt. 670991-2109, í síðasta lagi á mánudegi í vikunni sem viðkomandi mót fer fram. Staðfestingarpóstur sendist á godamot[at]thorsport.is. Staðfestingargjald dregst frá við lokagreiðslu.

Staðfestingargjald skal greiða í síðasta lagi þremur vikum fyrir hvert mót, 10.000 krónur á hvert lið, inn á sama reikning og staðfesting sendist í godamot[at]thorsport.is. 

Ef staðfestingargjald er ekki greitt í tíma er mótsstjóra heimilt að taka inn lið af biðlista ef svo ber undir. 


Þessi vefur er tileinkaður minningu Rúnars Hauks Ingimarssonar.