30.10.2016
Goðamótin 2017 - 5. og 6. flokkur

Goðamót Þórs verða á sínum stað á komandi vetri og verður mótið hjá stelpunum í 5. flokki það 50. Í röðinni. Nú er líka komið nýtt gras í Bogann og ekkert því til fyrirstöðu að ungt knattspyrnufólk alls staðar að af landinu sýni listir sínar og skemmti sér vel á Akureyri á komandi vetri.

Hér eru helstu upplýsingar um mótin 2017, dagsetningar, skráning, þátttökugjald og fleira.


Goðamótin 2017
5 kvk – 24.-26. febrúar
6 kk – 10.-12. mars
5 kk – 17.-19. mars
6 kvk – 24.-26. mars

Í 6. flokki verður áfram keppt í 5 manna liðum, 2x10 mínútur og er keppt á sex völlum samtímis, en í 5. flokki er keppt í 7 manna liðum, 2x12 mínútur á fjórum völlum samtímis.

Öll mótin hefjast á bilinu kl. 15:30-17:00 á föstudegi og þeim lýkur á bilinu kl. 13-15 á sunnudegi, en tímasetningar eru að sjálfsögðu mismunandi eftir fjölda liða á hverju móti.

Þar sem 6 KK mótið hefur verið fullt undanfarin ár verður takmörkun á fjölda liða að þessu sinni og því borgar sig að ganga frá skráningu sem fyrst. Ef mótið fyllist og áhugi er fyrir hendi verður mögulega boðið upp á aukakeppni fyrir lið úr minni bæjarfélögum sömu helgina og 6 KVK mótið fer fram. Þau félög sem hafa áhuga á að skoða að taka þátt í slíku hliðarmóti frekar en aðalmótinu í 6. flokki karla mega gjarnan hafa samband við mótsstjóra sem fyrst.

Skráning
Upplýsingar og skráning eru hjá mótsstjóra, Haraldi Ingólfssyni, í godamot[at]thorsport.is eða síma 824 2778.

Skráningu í hvert mót lýkur á föstudegi þremur vikum áður en viðkomandi mót hefst, eða fyrr ef mótið er fullt. Við skráningu skulu greiðast 10.000 krónur í staðfestingargjald fyrir hvert lið inn á reikning 0565-26-147500, kt. 670991-2109, staðfestingarpóstur sendist á godamot[at]thorsport.is. Staðfestingargjaldið dregst síðan frá við lokauppgjör.

Þátttökugjald
Þátttökugjald er 11.500 krónur á hvern keppanda, systkinaafsláttur í boði og verða upplýsingar veittar tengilið félags við skráningu. Frítt er fyrir þjálfara ásamt einum fararstjóra með hverju liði. Fyrir hvern fullorðinn sem fær armband mótsins þar umfram greiðast 6.000 krónur. Þátttökugjald greiðist inn á reikning 0565-26-147500, kt. 670991-2109, í síðasta lagi á mánudegi í vikunni sem viðkomandi mót fer fram. Staðfestingarpóstur sendist á godamot[at]thorsport.is.

Innifalið
Innifalið í þátttökugjaldinu er, auk fótboltamótsins: Gisting í skólastofum í tvær nætur, aðgangur að Glerárlaug (tímasetningar breytilegar eftir mótum), kvöldverður á föstudegi og laugardegi, morgunverður á laugardegi og sunnudegi, hádegisverður á laugardegi, rútuferð og ís í Ísgerðinni í Kaupangi á laugardegi og ávextir og Goðapylsur í hádeginu á sunnudegi. Foreldrar geta keypt sér matarkort hjá mótsstjórn eða stakar máltíðir í skólanum. Verð á máltíðum verður auglýst síðar. 

Einnig verða teknar liðsmyndir og settar í albúm á vef mótsins og á Facebook-síðu mótsins, þangað sem öllum er heimilt að sækja sér myndir og deila að vild. Afsláttartilboð verða í boði í bíó og mögulega aðra afþreyingu og verða þau kynnt nánar fyrir hvert mót.  

Allir þátttakendur fá glaðning frá Goða. Allir keppendur í 6. flokki fá þátttökupening og sigurliðið í hverjum flokki fær verðlaunagrip. Í 5. flokki fær sigurliðið í hverjum flokki verðlaunagrip og leikmenn í þremur efstu sætum hvers flokks fá verðlaunapeninga.

Við skipulagningu Goðamótanna er meðal annars tekið mið af tilmælum KSÍ til mótshaldara – sjá hér: 

Gestir á Goðamótum eru hvattir til að kynna sér Foreldrabækling KSÍ – „Spilaðu með“. Þessi vefur er tileinkaður minningu Rúnars Hauks Ingimarssonar.