8.3.2016
Goðamót 6kk: Leikjaplan og aðrar mikilvægar upplýsingar Hér er leikjaplanið fyrir Goðamótið í 6. flokki karla tilbúið ásamt öðrum mikilvægum upplýsingum. 

Uppfært 9.3.: Röðun á gististaðina og tímaskipulag fyrir matartíma, sund og pylsupartí.
Uppfært 10.3.: Tímaskipulag fyrir ísrútuna
Uppfært 11.3.: Handbók


Handbók með upplýsingum um mótið (pdf)
 
Við viljum minna forráðamenn félaganna á að greiða þátttökugjaldið. Skilvirkast er ef upphæðin er millifærð í einu lagi áður en komið er á mótið (á reikning 0565-26-147500, kt. 670991-2109, staðfestingarpóstur sendist á godamot[at]thorsport.is) og þá er hægt að ganga beint að armböndum mótsins hjá gjaldkera á 2. hæð í Hamri, félagsheimili Þórs. Staðfestingargjald (hafi það verið greitt) dregst frá þegar gengið er frá lokagreiðslu. 

Leikjaplan
Leikjaplan fyrir Goðamótið í 6. flokki karla er nú tilbúið. Hér eru tenglar á pdf-skjöl með leikjaplaninu í heild með öllum deildum saman í tímaröð annars vegar og svo tengill á hverja deild fyrir sig. Mótið er sett upp þannig að spilað er í „hollum“. Leikir eru því nokkuð þétt hjá hverju liði fyrir sig, en svo gott frí á milli. 

Leikjaplan - allir leikir

Argentína
Brasilía
Chile
Danmörk
England
Frakkland
Grikkland
Holland

Allir þátttakendur fá þátttökupening frá Þór og gjöf frá Goða. Sigurliðið í hverri deild fær að auki bikar. Verðlaunapeningar verða afhentir við stóra Goðaborðann í miðjum Boganum jafnóðum og hvert lið spilar sinn síðasta leik í mótinu á sunnudag. Reglur mótsins koma inn á síðuna fljótlega.

Innifalið í þátttökugjaldinu er gisting í tvær nætur í skólastofum, kvöldmatur á föstudag, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur á laugardag, morgunmatur og grillpartí á sunnudag, auk þess sem niðurskornir ávextir verða í boði í Hamri. Þá veitir armband mótsins ókeypis aðgang að Glerárlaug, en vegna fjölda þátttakenda verðum við að takmarka sundferðir við ákveðna tíma sem skipulagðir eru út frá leikjaplaninu.

Tímaskipulag fyrir matartíma, sund og pylsupartí
Hér er komið tímaskipulag fyrir mótið um helgina (pdf-skjal), þ.e. fyrir matartíma, sundferðir og pylsupartíið. Vegna fjölda verðum við að stýra álaginu og takmarka þann tíma sem hvert lið hefur í Glerárlaug. Vakin er athygli á að liðsstjórar verða að vera með liðinu þegar farið er í sund.

Í þessu pdf-skjali er tímatafla sett upp eftir liðum (ekki félögum), frá A til H, enda er þetta sett upp með hliðsjón af leikjadagskránni í hverri deild fyrir sig. Við biðjum fararstjóra og liðsstjóra um að virða þessar tímasetningar eins og hægt er þannig að allt gangi sem best fyrir sig.

Rútuferðir í Ísgerðina í Kaupangi
Allir þátttakendur fá frían ís í Ísgerðinni í Kaupangi, en þetta á aðeins við þá sem fara með skipulögðum rútuferðum frá Hamri - sjá tímaplan fyrir ísrútuna (pdf-skjal). Búið er að raða öllum liðum öllum félaga fyrirfram á ákveðna tíma. Hluti af hópnum fer fyrir hádegi á laugardag og hluti eftir hádegi. Brottför er frá bílastæðinu við Hamar og verður fullorðinn einstaklingur að fara með hverju liði. Þegar komið er í ísgerðina er mikilvægt að liðsstjórar/fararstjórar sjái til þess að strákarnir gangi beint til verks, fái sér ís og borði hann strax því ekki má ísinn í rútuna og passa verður að dvelja ekki lengi í Ísgerðinni þannig að rútan haldi áætlun. 

Gisting

Gistingin sem í boði er fyrir þátttakendur er í Glerárskóla og Síðuskóla, en báðir skólarnir eru í göngufjarlægð frá Þórssvæðinu. Síðuskóli verður aðeins nýttur til gistingar, en allar máltíðir fyrir þátttakendur eru í Glerárskóla, fyrir utan pylsupartíið í lok móts sem verður í Hamri, félagsheimili Þórs.

Glerárskóli: HK, Breiðablik, Stjarnan, Völsungur, KR, Afturelding
Síðuskóli: Dalvík (stofa 31), Vestri (stofa 34) og Tindastóll (stofa 25) 
Þórsstúkan: Fjarðabyggð, KF, Neisti
Hamar: Höttur

Áríðandi er að gestir átti sig á því og virði þá staðreynd að við getum ekki hleypt gestum inn í skólana fyrr en kl. 15 á föstudag. Það hefur því engan tilgang að koma fyrr í skólana og æskja inngöngu. Þetta er mjög mikilvægt því við viljum eiga gott samstarf við starfsfólk skólanna og vegna kennslu og annarra starfa getum við ekki hleypt inn í skólana fyrr.

Gönguleið frá Glerárskóla í Bogann liggur fyrir fyrir vestan Þórsvöllinn og viljum við vekja athygli á að stranglega bannað er að fara yfir girðingar og yfir vallarsvæðið. Gönguleið úr Síðuskóla liggur framhjá Glerárkirkju og beina leið niður að Þórssvæðinu.

Rútuferðir í Ísgerðina í Kaupangi

Allir þátttakendur fá frían ís í brauðformi í Ísgerðinni í Kaupangi, en það er þó aðeins í boði fyrir þá þátttakendur og liðsstjóra sem fara með skipulögðum rútuferðum frá Hamri. 

En að auki býður Ísgerðin þátttakendum og fjölskyldum þeirra 20% afslátt af ís á meðan mótið stendur yfir.

Vallaskipulag

Keppt er á sex völlum samtímis í Boganum. Fararstjórar, liðsstjórar og áhorfendur eru hvattir til að virða mörk vallanna og standa ekki alveg á hliðarlínunni (og alls ekki inni á völlunum). Einnig hvetjum við gesti til að nota ruslatunnur og dósatunnur sem eru á mörgum stöðum í Boganum.

Vallaskipulag (pdf-skjal)

Salernisaðstaða er hjá búningsklefunum í kjallara Hamars.

Bílastæði
Mikil örtröð myndast á bílastæðinu við Hamar og Bogann, enda er þetta fjölmennt mót. Við vekjum athygli á að einnig eru bílastæði við austurenda Bogans og hægt að ganga þaðan beint inn í Bogann. Á laugardag, frá hádegi og fram eftir degi verða tvær rútur í stöðugum ferðum frá Hamri í Ísgerðina og því mikilvægt að bílstjórar vandi sig þegar þeir leggja bílunum þannig að pláss verði fyrir rúturnar til að fara hring á planinu.

Tímaplan fyrir matartíma, sund og ísferð kemur hér inn á síðuna á morgun, ásamt upplýsingum um gistingu liðanna.


Þessi vefur er tileinkaður minningu Rúnars Hauks Ingimarssonar.