6.8.2019
Takk! Takk! Takk! Nú er rétt um mánuður liðinn frá 32. Pollamóti Þórs, sem var að þessu sinni í samstarfi við Samskip, og vonandi áfram um ókomna tíð – sem sagt, Pollamót Þórs og Samskipa. Pollamótsnefndin færir öllum sem að mótinu komu bestu þakkir!

Pollamót er einungis mögulegt með mikilli vinnu jafnt starfsfólks og sjálfboðavinnu margra innan félagsins. Störfin eru mörg, alls kyns undirbúningur á svæðinu, merkingar valla, uppsetning fyrir skemmtanir, hreinsun, auglýsingar og fleira.

Yfir mótshelgina eru síðan tugir sem vinna við veitingasölu, þrif og ruslatínslu, eftirlit, skipulagningu, dómgæslu og margt fleira. Vinnustundirnar eru ótaldar og handtökin fjölmörg. Með samstilltu átaki dagana fyrir mót og yfir mótshelgina tekst að halda Pollamót sem sómi er að og flestir eða allir gestir fara ánægðir heim. Það er enda markmiðið. 

En svo væri Pollamótið auðvitað ekki neitt nema af því að við fáum þátttakendur, gesti, stuðningsfólk og skemmtikrafta á svæðið.

Pollamótsnefndin þakkar öllum sem komu á einhvern hátt að mótinu og gerðu það að hinni frábæru skemmtun sem mótið er. Þátttakendur, gestir, skemmtikraftar, starfsfólk Þórs, sjálfboðaliðar í hinum ýmsu verkefnum og ekki síst þau fyrirtæki sem styrktu okkur og gerðu okkur kleift að halda mótið – TAKK!

Ábendingar óskast

Að sjálfsögðu er ekki allt fullkomið, alltaf hægt að gera betur hér og þar og ýmis smáatriði sem má bæta. Fyrir nokkru var sendur út tölvupóstur til fulltrúa allra þátttökuliða með óskum um ábendingar, sem og vangaveltur um breytingar. Nokkur svör hafa borist og verður farið vandlega yfir allar þær ábendingar sem komið hafa.

Endilega látið heyra í ykkur ef þið lumið á hugmyndum eða ábendingum sem gætu gert gott mót enn betra – pollamot[at]thorsport.is.

Pollamótið verður áfram á sínum stað sumarið 2020. Allar breytingar sem gerðar verða á skipulag, reglum og öðru verða að sjálfsögðu kynnta hér með góðum fyrirvara. 
Fylgist með. Sjáumst næsta sumar.Þessi vefur er tileinkaður minningu Rúnars Hauks Ingimarssonar.